Íslenska landsliðið í körfuknattleik skipað leikmönnum 18 ára og yngri vann jafnaldra sína frá Eistlandi með 15 stigum, 85:70, á Norðurlandamótinu í Södertalje í Svíþjóð í dag.
Íslenska liðið var með yfirhöndina mest allan leikinn en í hálfleik var staðan 39:34 Íslandi í vil. Eistarnir héldu í við Íslendinganna í þriðja leikhluta en þá var munurinn fjögur stig, 57:53 fyrir Íslandi.
Íslenska liðið vann hinsvegar fjórða leikhluta með yfirburðum, 28:17, og að lokum fimmtán stiga sigur.
Hjá íslenska liðinu var Stjörnumaðurinn Kristján Fannar Ingólfsson aftur stigahæstur með 21 stig, en ásamt því tók hann sex fráköst. Friðrik Leó Curtis átti einnig fantafínan leik í liði Íslands en hann skoraði 18 stig, tók níu fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.
Næst leikur Ísland gegn Danmörku á morgun, en íslenska liðið er með fullt hús eftir tvo leiki en í gær vann Ísland stórsigur á Noregi, 90:60.