Samdi við félag í Króatíu

Isabella Ósk Sigurðardóttir í landsleik síðasta vetur.
Isabella Ósk Sigurðardóttir í landsleik síðasta vetur. mbl.is/Óttar Geirsson

Isabella Ósk Sigurðardóttir, landsliðskona í körfuknattleik, hefur samið við króatíska félagið Zadar Plus um að leika með því á næsta keppnistímabili.

Karfan.is greinir frá þessu. Isabella lék með Njarðvík á síðasta tímabili en áður með Breiðabliki. Hún hefur einnig leikið áður erlendis því hún spilaði á síðasta ári með ástralska liðinu South Adelaide Panthers.

Zadar Plus er kornungt félag, aðeins þriggja ára gamalt, og var stofnað af fyrrverandi leikmönnum og fólki úr eldra félagi í borginni, sem var mjög sigursælt en lenti í fjárhagsvandræðum og leikur nú í neðri deildum.

Zadar Plus lék í B-deildinni á liðnu tímabili. Þar tapaði það umspilsleikjum gegn Split en hefur engu að síður fengið sæti í efstu deild og leikur þar í fyrsta skipti á komandi keppnistímabili.

Isabella var framlagshæsti íslenski leikmaðurinn í úrvalsdeildinni síðasta vetur. Hún er 25 ára gömul, leikur sem miðherji og á að baki átta landsleiki fyrir Íslands hönd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert