Lauk ferlinum í Njarðvík - nýtt starf á Kanaríeyjum

Nicolás Richotti í leik með Njarðvík gegn KR.
Nicolás Richotti í leik með Njarðvík gegn KR. mbl.is/Óttar Geirsson

Argentínski körfuknattleiksmaðurinn Nicolás Richotti, sem hefur leikið Njarðvík undanfarin tvö ár, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna og tekur í framhaldi af því við nýju starfi á Kanaríeyjum.

Richotti, sem er 36 ára gamall, átti langan og farsælan feril sem leikmaður en hann lék á Spáni í tólf ár áður en hann kom til Íslands, þar af í níu ár með liði Tenerife á Kanaríeyjum þar sem hann vann m.a. Meistaradeild FIBA með félaginu. Þá lék Richotti lengi með landsliði Argentínu.

Hann snýr nú aftur til félagsins í nýtt starf þar sem hann verður nokkurs konar sendiherra félagsins og kemur fram fyrir þess hönd á ýmsum sviðum.

Þá mun félagið sýna honum þann mikla heiður að treyjan hans númer 5, sem hann lék í með liði Tenerife, verður hengd upp í rjáfur á heimavelli liðsins þegar spænska deildakeppnin verður komin á gang á nýju keppnistímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert