Körfuboltamaðurinn Kristófer Acox gaf ekki kost á sér í landsliðsverkefni sumarsins en landsliðið hélt út til Ungverjalands í síðustu viku og tók þátt í alþjóðlegu móti. Mótið í Ungverjalandi er undirbúningur fyrir undankeppni Ólympíuleikanna 2024 sem fer fram í ágúst.
Kristófer verður ekki með liðinu í undankeppninni vegna meiðsla á hné. Hann þarf að fara í aðgerð á hægra hné og verður því frá í nokkurn tíma. Búist er við því að hann verði orðinn góður þegar íslenska deildin fer af stað en hann skrifaði nýlega undir tveggja ára samning við Val.
„Ég gat ekki verið með landsliðinu núna í sumar út af hnénu en ég á von á því að fara í smávegis aðgerð á hægra hnénu í ágúst. Ég hef engar áhyggjur af því að ég verði ekki klár (fyrir næsta tímabil). Ég vona að ég komist að hjá lækni sem fyrst og svo eru þetta fáeinar vikur sem þarf að hvíla.“