Callum Lawson semur við Tindastól

Callum Lawson og Antonio Woods eigast við í úrslitakeppninni.
Callum Lawson og Antonio Woods eigast við í úrslitakeppninni. mbl.is/Hákon Pálsson

Enski körfuboltamaðurinn Callum Lawson hefur samið við körfuknattleiksdeild Tindastóls og mun leika með Íslandsmeisturunum á komandi keppnistímabili. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá körfuknattleiksdeild Tindastóls.

Hann gengur til liðs við Tindastól frá Val. Callum Lawson er ekki ókunngur íslenskum körfubolta en áður en hann gekk til liðs við Val lék hann með Þór Þorlákshöfn. Hann hefur tvisvar unnið Íslandsmeistaratitil, fyrst árið 2021 með Þór og svo árið 2022 með Val. 

Dagur Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls segir að Callum sé mikill liðsstyrkur.

„Þetta er mikill hvalreki á okkar fjörur og enn ein staðfesting þess að Tindastóll er orðinn valkostur fyrir körfuknattleiksmenn í allra hæsta gæðaflokki hér á Íslandi. Callum hittir hér gamla félaga og ég er sannfærður um að hann muni styrkja liðsheildina og falla vel inn í þann sterka hóp sem nú býr sig undir átökin á komandi vetri“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert