Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfubolta, samdi í dag við spænska félagið Alicante, sem leikur í B-deildinni þar í landi.
Hann kemur til félagsins frá Pesaro á Ítalíu, þar sem hann skoraði fimm stig, tók tvö fráköst og gaf tvær stoðsendingar að meðaltali í leik á síðustu leiktíð.
Alicante hafnaði í níunda sæti B-deildarinnar á síðustu leiktíð og tapaði síðan í umspili um sæti í efstu deild. Ægir Þór Steinarsson lék með liðinu á síðasta tímabili.
Hinn 26 ára gamli Jón Axel, sem er mikill Grindvíkingur, hefur leikið með Frankfurt, Bologna, Crailsheim, Pesaro og nú Alicante síðan hann hélt í atvinnumennsku.