Leikmaður Njarðvíkur dæmdur fyrir heimilisofbeldi

Tynice Martin í leik með háskólaliði West Virginia.
Tynice Martin í leik með háskólaliði West Virginia. Ljósmynd/West Virginia University Athletics

Bandaríkjakonan Tynice Martin, einn af nýjum leikmönnum Njarðvíkur í körfuknattleik fyrir komandi tímabil, var árið 2019 dæmd í eins árs skilorðsbundið fangelsi fyrir heimilisofbeldi.

Martin er 26 ára bakvörður sem kom frá ViVe í Finn­landi, þar sem hún skoraði 19,5 stig að meðaltali í leik á síðasta tímabili.

Hún var val­in af Los Ang­eles Sparks í leik­manna­vali WNBA-deild­ar­inn­ar árið 2020 en lék áður með há­skólaliði West Virg­inia.

West Virgina Metro News greindi frá því í nóvember árið 2019 að þegar Martin var leikmaður háskólaliðs West Virginia hafi lögregla verið kölluð til að heimili fyrrverandi kærustu hennar þann 15. júlí árið 2019, vegna gruns um heimilisofbeldi.

Martin var handtekin þann 2. ágúst og leiddi rannsókn á málinu í ljós að hún hafi gengið inn á heimili fyrrverandi kærustu sinnar í Morgantown í Vestur-Virginíuríki og togað í hár hennar.

Martin hafi svo ásamt annarri konu ýtt fórnarlambinu á hurð og lamið hana, tekið hálstaki og hrint.

Hún var í nóvember árið 2019 dæmd í eins árs skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert