Landsliðsmaðurinn ekki með í upphafi tímabils

Kári Jónsson, bakvörður Vals.
Kári Jónsson, bakvörður Vals. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kári Jónsson, landsliðsmaður í körfuknattleik og bakvörður Vals, verður ekki með liðinu í upphafi tímabils vegna meiðsla sem hann glímir nú við.

„Kári er að jafna sig á meiðslum. Það er ekki komið á hreint hvenær hann kemur til baka en það styttist,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is á kynningarfundi KKÍ á Grand hóteli í dag.

„Hann lenti í hásinarveseninu sem hann var í fyrir einhverjum árum en ekkert nálægt því stigi sem það var á þá. Þetta hélt honum frá landsliðinu í ágúst.

Hann hugsar vel um sig, er búinn að gera vel og það stefnir allt í að hann verði 100 prósent fljótlega. Við metum hvernig þetta þróast, það er erfitt að segja til um þessar hásinar,“ bætti hann við.

Söknum aðeins bakvarðanna okkar

Spurður út í frekari meiðsli hjá Valsliðinu í upphafi tímabils sagði Finnur Freyr:

„Ástþór [Atli Svalason] sneri sig illa fyrir einhverjum vikum síðan en það styttist í hann líka. Þeir tveir og Bandaríkjamaður sem verður líka með okkur eru hugsaðir sem bakverðir liðsins og Daði [Lár Jónsson] náttúrlega líka.

Hann stóð sig mjög vel í meisturum meistaranna um daginn. Við söknum aðeins bakvarðanna okkar en aðrir hafa bara leyst það hlutverk vel.“

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Von á Bandaríkjamanni

Bandaríkjamaðurinn sem hann minntist á er ekki enn kominn til landsins en von er á leikmanninum fljótlega. Finnur Freyr sagði ekki von á frekari styrkingum hjá Val:

„Við kynntum Angólamann [António Monteiro] til leiks á sunnudaginn og svo er Bandaríkjamaðurinn en við látum þar við duga.

Við fáum Angólamanninn, Bandaríkjamanninn og Kristinn [Pálsson] inn í þetta í staðinn fyrir Pablo [Bertone], Callum [Lawson] og Ozren [Pavlovic]. Það er það sem við munum gera á markaðnum.“

Mörg lið betri og önnur lélegri

Hann kvaðst hlakka til komandi tímabils.

„Við erum bara spenntir og tilbúnir að halda áfram að þróa lið okkar og styrkja körfuboltann í Val. Það eru búnar að vera töluverðar breytingar á strákunum sem hafa verið, eins og Pablo og Callum sem eru farnir, en við erum með flotta nýja stráka og erum spenntir.“

Val var á kynningarfundinum spáð öðru sæti, bæði í spám félaganna og fjölmiðla. Finnur Freyr sagðist erfiðlega geta spáð í spilin fyrir komandi tímabil.

„Það er svo erfitt að segja til um það. Liðin eru svo mismunandi og við erum að fá inn nýja leikmenn sem mun koma í ljós hvernig passa inn í þetta hjá okkur. Eftir sem árunum í þessari deild fjölgar finnst mér þetta allt alveg eins.

Öll liðin ætla sér stóra hluti og mörg af þeim verða betri en flestir búast við og önnur verða lélegri. Vonandi verðum við í betri hlutanum. Það er mikil vinna fram undan og eitthvað sem við þurfum að einbeita okkur að.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert