„Það eru smá meiðsli að hrjá okkur núna en það er kannski fínt að taka þau út fyrir deildina,“ sagði Halldór Karl Þórsson, þjálfari nýliða Hamars í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, í samtali við mbl.is á kynningarfundi KKÍ á Grand hóteli í dag.
„Við erum með þrjá leikmenn sem ná ekki að spila æfingaleik í kvöld. Þetta er lítilsháttar hjá tveimur þeirra en einn fór úr axlarlið, hann gæti verið aðeins lengur frá.
Það er spænski strákurinn hjá okkur, Ibu [Jassey]. Hann fór úr axlarlið og við sjáum hvað hann verður lengi frá. Við eigum samt ennþá eftir að sjá hvort hann nái kannski fyrsta leik.
Þetta er ekkert svo alvarlegt þar sem hann fór ekki alveg úr lið. Ég reikna allavega með öllum hinum í fyrsta leik á móti Keflavík,“ hélt Halldór Karl áfram.
Hamar fær Keflavík í heimsókn í fyrstu umferð deildarinnar eftir slétta viku.
Vil ekki hrófla of mikið við þessu
Hann sagði ekki standa til að styrkja liðið frekar. „Nei, við ætlum bara að keyra á þessu svona.
Við fengum nýjan Kana inn [Maurice Creek], sem er svona aðeins stærri prófíll af Kana, og annan Bosman-leikmann [Frakkann Franck Kamgain], sem hefur samt ekki jafn mikla reynslu og sá sem við vorum með í fyrra.
Svo bættum við Danero [Thomas] við og Ibu, sem er að koma úr 1. deildinni. Ég vil sjá þessa menn bera þetta uppi og vil ekki vera að hrófla of mikið við þessu.“
Mikill spenningur í bæjarfélaginu
Halldór Karl sagði mikla tilhlökkun ríkja fyrir tímabilinu hjá Hamarsmönnum og bæjarbúum í Hveragerði.
„Tímabilið leggst vel í okkur. Það er mikill spenningur og líka í bæjarfélaginu. Við erum spenntir fyrir því að koma og sanna að við getum átt heima í efstu deild.
Hveragerði er körfuboltabær og það væri virkilega gaman fyrir svona bæjarfélag sem lifir fyrir körfubolta að finna fótfestu í efstu deild.“
Í spám félaganna og fjölmiðla var liðinu í báðum tilfellum spáð falli niður í 1. deild.
„Er það ekki svolítið auðvelt fyrir hina að setja okkur neðarlega? Svona miðað við liðin sem hafa verið að bæta í.
Eins og Álftanes eru nýliðar ásamt okkur en hafa verið að sækja leikmenn úr annarri hillu heldur en við, hafa verið að sækja okkar bestu landsliðsmenn.
Þannig að það er kannski eðlilegt að þeim sé spáð ofar en okkur þar sem við erum að treysta á okkar kjarna sem við vorum með á síðasta tímabili, höldum okkar sama liði.
Það eru örfáar bætingar hjá okkur, aðeins stærri prófíll af Kana. Það er auðvelt að setja okkur neðarlega og við þurfum bara að afsanna það og sýna að við getum gert betur,“ sagði hann.
Halldór Karl kvaðst bjartsýnn á að Hamri takist ætlunarverk sitt að halda sæti sínu í úrvalsdeildinni.
„Verður maður ekki að vera það? Það væri ekki eðlilegt að horfa svartsýnn inn í tímabilið. Ég er ánægður með okkar menn og hvernig við erum að setja liðið saman,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.