Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, var svekktur eftir tap gegn Fjölni, 70:62, í annarri umferð Subway-deildar kvenna í körfubolta í Dalhúsum í Grafarvogi í kvöld.
„Fyrstu viðbrögð eru nokkuð góð. Við vorum að fá opin skot, vorum að fá okkar tækifæri í sókninni en vorum bara ekki að nýta þau. Miðað við byrjunina í þessum leik er bara ágætt að halda þeim í 70 stigum, við komum flatar út varnarlega. Á endanum er þetta bara einstaklingsframtak frá Raquel sem kálar okkur í þessum leik.“
Raquel Laneiro, leikmaður Fjölnis, átti frábæran leik eins og Daníel talar um. Hún endaði leikinn sem langstigahæsti leikmaður vallarins með 35 stig.
„Við komum klárlega með eitthvað betra plan gegn henni í leikinn á Akureyri. Í þessum leik tek ég það á mig að við hefðum kannski þurft að gera einhverjar breytingar fyrr.“
Skotnýting Þórsliðsins var í kringum 30 prósent en á löngum köflum var hreinlega eins og lok væri á körfu Fjölnis, boltinn bara fór ekki ofan í.
„Ég bara veit ekki hvað veldur. Við kannski hittum bara ekki á okkar dag. Fyrsta ferðalag ársins getur líka verið pínu erfitt, við eigum eftir að koma okkur í þennan vana að keyra í fimm tíma áður en við mætum í útileiki. Þetta bara datt ekki með okkur í dag.“
Þór er með tvö stig eftir fyrstu tvær umferðirnar en liðið lagði Stjörnuna í fyrstu umferð. Daníel segir heimavöllinn verða mikilvægan liðinu í vetur.
„Við þurfum klárlega að vinna þessi neðstu sex lið heima. Við verðum að vera sterkar þar og treystum svolítið á lætin í Höllinni. Svo væri gaman að geta strítt þessum liðum sem eru föst í efstu fjórum sætunum heima líka.“