Andri Þór Kristinsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs ÍR í körfuknattleik.
ÍR leikur í 1. deild á tímabilinu eftir að hafa fallið úr úrvalsdeildinni á því síðasta og í kjölfarið hafnað boði um að taka sæti í efstu deild að nýju.
Andri Þór býr yfir mikilli reynslu þar sem hann hefur meðal annars þjálfað kvennalið Hamars, Breiðabliks og Hauka í efstu deild.
„Við erum gríðarlega ánægð með að fá Andra til starfa til okkar og hjálpa okkur í þessari skemmtilegu uppbyggingu sem er að eiga sér stað í Breiðholtinu.
Það er ekki spurning að reynsla hans mun hjálpa félaginu, bæði við að efla innviðina í félaginu og að hjálpa okkur að taka næsta skref í baráttunni á næsta tímabili,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild ÍR.