Það eitur sem við völdum í þetta skiptið

Benedikt Guðmundsson ræðir við sína menn í kvöld.
Benedikt Guðmundsson ræðir við sína menn í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er ánægður með stigin tvö og framlag liðsins í heild að mestu leyti. Í síðasta leik þá vantaði framlag frá fleiri leikmönnum og við bættum úr því í kvöld,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur við mbl.is eftir sterkan útivallarsigur á Haukum í kvöld í úrvalseild karla í körfubolta.

Var eitthvað sem mátti fara betur í ykkar leik í kvöld?

Það voru margar ákvarðanir sem við hefðum getað ígrundað betur áður en þær voru teknar. Það er eitt að tapa boltanum en annað að tapa honum eins klaufalega og við gerum oft á tíðum í kvöld.

Í lokin erum við farnir að verja forskotið þegar það eru fjórar mínútur eftir í stað þess að halda bara áfram að spila okkar leik og klára þennan leik. Við löguðum það samt eftir leikhlé sem við tókum í fjórða leikhluta. En heilt yfir er ég ánægður með okkar leik í kvöld.”

Jalen Moore setur 37 stig í kvöld fyrir Hauka. Náðu Njarðvíkingar ekki að verjast hans áhlaupum?

„Það var ákvörðun eftir að leikurinn fór af stað að leyfa honum meira því planið var að slökkva í þessum tveimur Finnum og þegar hann byrjaði að sækja svona á okkur þá varð hann að fá rýmið því við ætluðum að halda hinum niðri. Við reyndum samt að verjast honum að einhverju leyti en þetta var það eitur sem við völdum í þetta skiptið og það gekk upp.”

Tveir leikir búnir og fjögur stig. Verður Njarðvík í toppbaráttunni í vetur?

„Við erum ekkert farnir að pæla í neinu svoleiðis. Við erum bara að reyna ná út stigum og bæta okkur í hverjum leik. Njarðvík verður ekki í neinni umræðu strax um að vera í toppbaráttu í vetur. Það er alltof lítið liðið á þetta tímabil.”

Þannig að þú setur Njarðvík ekki flokk með toppliðum deildarinnar?

„Ekki núna en ef við verðum í topp fjórum eftir 16 umferðir þá skal ég taka undir eitthvað slíkt en við megum alls ekki fara að ofmetnast í upphafi móts þegar engin leið er að sjá hverjir geta eitthvað og hverjir ekki. Það er ekkert að marka þessi úrslit í fyrstu umferðum mótsins,” sagði Benedikt að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert