Keflavík vann æsispennandi grannaslag

Remy Martin fór á kostum.
Remy Martin fór á kostum. Ljósmynd/Jóhann Helgi

Keflavík tryggði sér í kvöld sæti í 16-liða úrslitum bikarkeppni karla í körfubolta með 109:108-útisigri á Njarðvík í framlengdum og æsispennandi grannaslag í 1. umferðinni.

Var leikurinn jafn og spennandi allan tímann, en Njarðvík var með eins stigs forskot í hálfleik, 53:52. Njarðvíkingar voru svo með 94:91-forskot þegar sjö sekúndur voru eftir, en þá skoraði Igor Maric þriggja stiga körfu og tryggði Keflavík framlengingu.

Í framlengingunni reyndist Keflavíkurliðið ögn sterkara og Njarðvíkingar sátu eftir með sárt ennið.

Remy Martin fór á kostum fyrir Keflavík, skoraði 42 stig og gaf 11 stoðsendingar. Chaz Williams skoraði 33 stig, tók 11 fráköst og gaf níu stoðsendingar fyrir Njarðvík.

Álftanes úr úrvalsdeildinni vann 93:55-stórsigur á Skallagrími úr 1. deild í Borgarnesi. Douglas Wilson skoraði 23 stig fyrir Álftanes. Darius Banks gerði 11 fyrir Skallagrím.

Þá vann Fjölnir 115:88-heimasigur á ÍA í 1. deildarslag. Brynjar Kári Gunnarsson skoraði 23 stig fyrir Fjölni og Styrmir Jónasson 23 fyrir ÍA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert