Nýliðarnir unnu eftir framlengda spennu

Kolbrún María Ármannsdóttir lék vel fyrir Stjörnuna.
Kolbrún María Ármannsdóttir lék vel fyrir Stjörnuna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýliðar Stjörnunnar gerðu gríðarlega góða ferð til Njarðvíkur og unnu 87:81-útisigur á Njarðvíkingum í framlengdum lokaleik sjöttu umferðar úrvalsdeildar kvenna í körfubolta í kvöld.

Stjarnan er með sex stig, eins og Haukar og Þór og eru liðin í 5.-7. sæti. Njarðvík er í þriðja sæti með átta stig.

Stjörnukonur voru með forystuna nánast allan fyrri hálfleikinn og var staðan eftir hann 45:37. Njarðvík svaraði í þriðja leikhluta og var staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann 64:60, Njarðvík í vil.

Stjarnan neitaði að gefast upp, tókst að jafna og knýja fram framlengingu, en staðan eftir venjulegan leiktíma var 75:75. Stjarnan skoraði svo tólf stig gegn sex í framlengingunni.

Kolbrún María Ármannsdóttir gerði 24 stig fyrir Stjörnuna og Katarzyna Trzeciak gerði 22 stig og tók níu fráköst. Tynice Martin skoraði 21 stig og tók átta fráköst fyrir Njarðvík og Ena Viso skoraði 20 stig og gaf níu stoðsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert