Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hefur samið við Bandaríkjamanninn James Ellisor um að leika með liðinu á tímabilinu.
Ellisor, sem er 33 ára gamall framherji, kemur frá stórliðinu Benfica þar sem hann varð portúgalskur meistari og bikarmeistari á síðasta tímabili.
Hefur Ellisor lengst af spilað í portúgölsku úrvalsdeildinni og alls unnið meistaratitilinn þar í landi fjórum sinnum; fyrst með Oliveirense, þá í tvígang með Sporting frá Lissabon og loks með Benfica.
Einnig varð hann tvívegis bikarmeistari með Sporting. Ellisor hefur einnig leikið með Granada í spænsku B-deildinni, sem liðið vann og komst þannig upp í úrvalsdeild.
Í tilkynningu frá körfuknattleiksdeild Stjörnunnar segir að vonir séu bundnar við að Ellisor fái leikheimild í tæka tíð fyrir leik liðsins gegn Keflavík í úrvalsdeildinni í kvöld.