Lét þá aðeins heyra það

Benedikt Guðmundsson
Benedikt Guðmundsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur var ánægður með sigur Njarðvíkur á Tindastóli í kvöld í framlengdum æsispennandi leik. Með sigrinum eru Njarðvíkingar með 10 stig í öðru sæti líkt og Valur og Þór Þorlákshöfn í úrvalsdeild karla í körfubolta.

„Mjög ánægður með úrslitin og við vorum búnir að tapa síðustu tveimur leikjum á heimavelli og gríðarlega mikilvægt að komast aftur á sigurbraut. Þetta eru góð stig og við tökum þennan sigur en það er margt sem við hefðum getað gert miklu betur."

Þú tekur leikhlé í fjórða leikhluta í stöðunni 72:69 eftir að þið voruð mest 11 stigum yfir. Það heyrðist ansi hátt í þér. Hvað sagðir þú við strákana?

Langt frá því að vera sáttur

„Menn voru bara að láta skora á sig hérna léttilega og ég var langt frá því að vera sáttur við mína menn þá og ég lét þá aðeins heyra það. Í svona stöðu eftir að hafa verið 11 stigum yfir og færð á þig 20 stig á stuttum tíma er alls ekki nógu gott hjá liði sem ætlar að ná árangri í þessari deild. Sem betur fer gekk þetta betur í framlengingunni."

Vendipunkturinn í framlengingunni er væntanlega þriggja stiga karfan frá Chaz Williams?

„Já hann kemur þessu í tveggja körfu leik með þristinum. Þetta var risaþristur hjá honum. Fer með þetta úr einu stigi upp í fjögur. Þá var staðan orðin þannig að þetta var okkar að klúðra og þetta hefur nú verið allskonar hjá okkur í þessari stöðu. Ég var því ánægður með að við leystum þessa stöðu og sigldum þessu heim."

Varstu heilt yfir ánægður með dómgæsluna í leiknum?

„Já heilt yfir var ég það. Auðvitað er auðvelt að segja það bara eftir sigurleik en það er mitt persónulega mat að heilt yfir var þetta gott þrátt fyrir að það séu alltaf einhver atriði sem pirra mann. Það er bara hluti af þessu“

Þið eruð ennþá á toppnum með Val og Þór Þorlákshöfn og skiljið Tindastól eftir fyrir neðan ykkur í deildinni eftir þennan leik.

„Fyrir þennan leik var þetta sjö liða pakki þannig að það er fínt að hafa unnið í kvöld og fyrir þennan leik þá leit ég á þetta sem skyldusigur í ljósi þess að það vantaði marga hjá þeim. Ef við ætluðum einhvern tímann að vinna Stólana þá var það hérna í kvöld," sagði Benedikt við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert