Grindavík burstaði Þór í Smáranum

Þorleifur Ólafsson ræðir við liðskonur sínar.
Þorleifur Ólafsson ræðir við liðskonur sínar. mbl.is/Óttar Geirsson

Grindavík fór þægilega með Þór Akureyri, 93:63, í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik í Smáranum í Kópavogi í dag. 

Eins og flestum er kunnugt getur Grindavík ekki leikið heimaleiki sína í bænum en Breiðablik bauðst til þess að hýsa leikinn í Smáranum. Grindvíkingar mönnuðu stúkuna en nú á eftir fer fram leikur Grindavíkur og Hamars, einnig í Smáranum. 

Með sigrinum er Grindavík komið í annað sæti deildarinnar með 12 stig eftir átta leiki. Þór er í fimmta sæti með átta stig. 

Stuðningsmenn Grindavíkur í Smáranum í dag.
Stuðningsmenn Grindavíkur í Smáranum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Lið Grindavíkur var sterkara frá fyrstu mínútunum en Grindavík var átta stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 25:17. Í öðrum leikhluta jók Grindavík forskot sitt og var 18 stigum yfir í hálfleik 41:23. 

Það hægði ekki á Grindvíkingum í síðari hálfleik en liðið vann að lokum 30 stiga sigur, 93:63.

Danielle Rodriguez átti stórleik í liði Grindavíkur en hún skoraði 24 stig, tók 12 fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Hekla Nökkvadóttir var næst stigahæst með 20 stig en hún tók einnig fimm fráköst og gaf átta stoðsendingar. Lore Devos var atkvæðamest hjá Þór en hún skoraði 23 stig, tók tíu fráköst og gaf stoðsendingu. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert