Körfuknattleiksdómarinn Kristinn Óskarsson setti inn afar áhugaverða færslu á samfélagsmiðilinn Facebook í gærkvöldi.
Þar var dómgæsla hjá konum til umræðu og tjáði Kristinn sig um frétt sem birtist á Vísi.is í gær þar sem enginn dómari mætti á leik í Faxaflóamóti hjá 3. flokki kvenna í knattspyrnu.
Jafnaldrar stelpnanna dæmdu fyrri hálfleikinn en í síðari hálfleik þurfti einn afinn á hliðarlínunni að hlaupa í skarðið og hann endaði á að klára leikinn.
„Stærsta vandamál í dómgæslu í dag er að konur sinna ekki sínum hluta verkefnisins,“ skrifaði Kristinn í færslu sem hann birti á Facebook.
„Sem dæmi þá þurfa konur u.þ.b. 42% af allri dómgæslu hjá KKÍ en sinna sjálfar innan við 2%. Ef reglan væri að karlar dæmdu hjá körlum og konur dæmdu hjá konum þá þyrftum við að leggja niður kvennastarfið að mestu.
Þessi kynjahalli setur mikinn þrýsting á kerfið og eru körfuknattleiksdómarar flestir að dæma allt of mikið til að halda starfinu gangandi. Ástandið er örugglega sambærilegt í handbolta og fótbolta,“ bætti dómarinn við.