Nýliðar Stjörnunnar unnu sinn fjórða sigur í röð í úrvalsdeild kvenna í körfubolta er liðið vann 89:80-heimasigur á Grindavík í kvöld. Bæði lið eru með 12 stig í 2.-4. sæti, fjórum stigum á eftir toppliði Keflavíkur.
Var leikurinn jafn og spennandi í fyrri hálfleik og var staðan eftir hann 44:40, Grindavík í vil. Stjarnan lagði síðan grunninn að sigrinum með glæsilegum þriðja leikhluta, en Stjarnan skoraði 22 stig gegn 10 í leikhlutanum.
Tókst Grindavík ekki að jafna í fjórða leikhlutanum og enn einn sigur Stjörnukvenna raunin.
Katarzyna Trzeciak skoraði 26 stig og tók 14 fráköst fyrir Stjörnuna. Hin kornunga Kolbrún María Ármannsdóttir gerði 20 stig.
Eve Braslis skoraði 35 stig og tók tíu fráköst fyrir Grindavík. Danielle Rodríguez bætti við 25 stigum og tíu fráköstum.