Geng mjög sátt frá borði

Helena Sverrisdóttir með boltann í 81. A-landsleiknum gegn Tyrklandi í …
Helena Sverrisdóttir með boltann í 81. A-landsleiknum gegn Tyrklandi í Ólafssal hinn 12. nóvember síðastliðinn. mbl.is/Óttar Geirsson

Helena Sverrisdóttir, besta körfuknattleikskona Íslandssögunnar, lagði á dögunum skóna á hilluna, 35 ára gömul.

Helena hefur verið að glíma við meiðsli í hné undanfarin tvö tímabil og hefur því ekki getað beitt sér sem skyldi undanfarin tímabil. Eftir myndatöku í vikunni kom svo í ljós að hún væri með brjóskskemmdir í hné og hún ákvað í framhaldinu af því að leggja skóna á hilluna.

Helena lék með uppeldisfélagi sínu Haukum hér á landi, ásamt því að leika með Val frá 2018 til 2021 en hún lék einnig með Good Angels Kocice í Slóvakíu, Diósgyöri í Ungverjalandi, Polkowise í Póllandi og Ceglédi í Ungverjalandi á atvinnuferlinum.

Helena varð fimm sinnum Íslandsmeistari á ferlinum og fimm sinnum bikarmeistari. Þá var hún tólf sinnum útnefnd körfuknattleikskona ársins, síðast árið 2019. Hún lék 81 A-landsleik fyrir Ísland og er í dag leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi.

Meiri tími með fjölskyldunni

„Tilfinningin er frekar skrítin ef ég á að vera alveg hreinskilin,“ sagði Helena í samtali við Morgunblaðið.

„Það er frekar fúlt að hafa ekki getað klárað þetta eins og ég hefði viljað og það hefur líka tekið mikið á að vera meidd í tvö ár. Á sama tíma er ég mjög spennt að geta loksins eytt meiri tíma með fjölskyldunni þannig að tilfinningarnar eru beggja blands ef svo má segja.

Ég var búin að ýja að því að þetta yrði mögulega mitt síðasta tímabil en ég var líka búin að segja það við sjálfa mig að á meðan líkaminn væri góður þá myndi ég halda áfram. Maðurinn minn nefndi það við mig að það væri fínt að þetta hefði gerst með þessum hætti því annars hefði ég líklegast aldrei hætt,“ sagði Helena.

Mikið af brjóskskemmdum

Eins og áður sagði hefur Helena verið í miklum vandræðum með hnéð á sér undanfarin tvö ár.

„Fyrir tveimur árum, nánast upp á dag, fór ég í myndatöku á hnénu og þá kemur í ljós að ég er með rifinn liðþófa. Ég fer svo aftur í myndatöku fyrir sirka ári þar sem hlutirnir líta bara nokkuð vel út. Mér leið mjög vel fyrir landsleikina gegn Rúmeníu og Tyrklandi en eftir leikinn gegn Tyrkjum bólgnaði hnéð mikið upp og það var kominn mikill vökvi inn á það.“

Viðtalið við Helenu má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert