LaMelo Ball var stigahæstur hjá Charlotte Hornets þegar liðið hafði betur gegn Boston Celtics í NBA-deildinni í körfuknattleik í Charlotte í Bandaríkjunum í nótt.
Leiknum lauk með naumum sigri Charlotte, 121:118, en Ball skoraði 36 stig, tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar í leiknum.
Boston hafði unnið sex leiki í röð fyrir leik næturinnar en Jayson Tatum fór mikinn fyrir Boston og skoraði 45 stig, tók 13 fráköst og gaf sex stoðsendingar.
Charlotte er í þrettánda sæti Austurdeildarinnar með fjóra sigra og níu töp en Boston er sem fyrr í efsta sætinu með ellefu sigra og þrjú töp.
Úrslit næturinnar í NBA:
Charlottte – Boston 121:118
Detroit – Denver 103:107
Washington – Milwaukee 129:142
Chicago – Miami 100:118
Minnesota – New York 117:100
New Orleans – Sacramento 129:93
San Antonio – LA Clippers 99:124
Golden State – Houston 121:116