Njarðvík vann sannfærandi 75:53-útisigur á Val í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í kvöld, en leikurinn var liður í 9. umferð deildarinnar.
Er Njarðvík með 14 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Keflavíkur, sem á leik til góða. Valur er í fimmta sæti með tíu stig.
Njarðvíkingar voru mun sterkari í fyrri hálfleik og var staðan eftir hann 44:29. Njarðvík hélt svo áfram að bæta í forskotið í seinni hálfleik og vann að lokum afar sannfærandi sigur.
Anðela Strize skoraði 19 stig fyrir Njarðvík og Tynice Martin gerði 13 stig og tók níu fráköst.
Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði 12 stig og tók níu fráköst fyrir Val. Ásta Júlía Grímsdóttir bætti við ellefu stigum.