Njarðvíkingar eru einir á toppnum á úrvalsdeild karla í körfubolta eftir 103:76-stórsigur á heimavelli gegn Þór frá Þorlákshöfn í 8. umferðinni í kvöld.
Njarðvík er nú með tólf stig, tveimur stigum meira en Þór og fimm önnur lið.
Ákveðin spenna var hjá undirrituðum fyrir þennan leik í kvöld og búist var við hörkuviðureign. Þessi spenna hins vegar varð að lúta í gras fyrir vonbrigðum þar sem leikurinn í heild sinni var nánast kláraður í fyrri hálfleik og náði aldrei þeirri reisn sem von var á.
Njarðvíkingar hófu leik af krafti strax í upphafi og skoruðu heil 35 stig í fyrsta leikhluta. Varnarleikur Þórsara á hælunum og allan kraft skorti í leik þeirra. Þetta slen þeirra í fyrsta leikhluta elti þá svo allan leikinn og fylgikvilli þessa var arfaslök skotnýting allan leikinn.
Það þarf svo sem ekkert að fara frekar yfir það en þetta var einfaldlega eitt af þessum kvöldum þar sem liðið náði sér aldrei í þann neista sem til þurfti að ógna sigri heimamanna.
Hinsvegar má ekki taka af heimamönnum að þeir léku við hvurn sinn fingur allt kvöldið. Spilamennska liðsins til fyrirmyndar á báðum endum vallarins. Það voru súrsætar fréttir fyrir leik hjá Njarðvíkingum.
Þorvaldur Orri Árnason sem nýverið kom til liðsins eftir að hafa alið manninn vestra hafs í Bandaríkjunum síðustu mánuði, spilaði sinn fyrsta leik og skilaði sínum mínútum nokkuð vel.
Hinsvegar varð liðið fyrir því áfalli að Carlos Mateo sleit hásin á æfingu daginn fyrir leik og líkur á því að hann hafi leikið sinn síðasta leik fyrir þá Njarðvíkinga. Sterkur sigur Njarðvíkinga og þeir trjóna á toppi í jafnri deildinni þetta árið.