Breiðablik er komið á blað í úrvalsdeild karla í körfubolta eftir 87:72-heimasigur á nýliðum Hamars í botnslag deildarinnar í kvöld. Voru liðin þau einu sem voru stigalaus fyrir leikinn.
Lítið var skorað í upphafi leiks og jafnræði með liðunum. Hamar var með 17:16 forskot eftir fyrsta leikhlutann, en Breiðablik svaraði með góðum öðrum og þriðja leikhluta og var staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann 66:54.
Breiðablik hélt Hamarsmönnum í þægilegri fjarlægð í síðasta leikhlutanum og sigldi sterkum sigri í höfn.
Keith Jordan skoraði 22 stig og tók tíu fráköst fyrir Breiðablik. Sölvi Ólason, Zoran Vrkic og Snorri Vignisson gerðu 16 stig hver. Franck Kamgain skoraði 20 fyrir Hamar og Jalen Moore 19 og tók 11 fráköst.