Haukamaður fór tvisvar í hjartastopp

David Okeke í leik með Haukum í haust.
David Okeke í leik með Haukum í haust. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

David Okeke, ítalskur körfuknattleiksmaður í liði Hauka, fór í hjartastopp í tvígang í leik liðsins gegn Tindastóli í úrvalsdeildinni í körfuknattleik á Sauðárkróki í gærkvöld.

Vísir skýrir frá þessu en þar kemur fram að Okeke hafi hnigið niður í öðrum leikhluta en sjá mátti þá að gangráður hans hefði gefið honum stuð. Hann hefði reist sig við og þá fengið annað stuð frá gangráðnum.

Okeke settist síðan á varamannabekk Hauka en var fluttur fljótlega á sjúkrahúsið á Sauðárkróki.

Maté Dalmay, þjálfari Hauka, sagði við Vísi að læknir hefði sagt að Okeke hefði farið í tvö væg hjartastopp.

Tindastóll vann leikinn, 78:68, en Okeke var búinn að skora 14 stig á fyrstu 17 mínútum leiksins þegar atvikið átti sér stað.

Okeke, sem er 25 ára gamall og fæddur í Monza á Ítalíu, leikur nú sitt þriðja tímabil á Íslandi en hann lék tvo undanfarna vetur með Keflvíkingum. Hann fór í nýliðaval bandarísku NBA-deildarinnar árið 2019. Okeke lék með U19 ára landsliði Ítala í heimsmeistarakeppninni árið 2017 þegar liðið fékk silfurverðlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert