Grindavík og Keflavík áttust við í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Keflavík 111:82.
Eftir leikinn í kvöld er Keflavík með 10 stig, eins og sjö önnur lið í 2.-8. sæti en Grindavík situr í 9. sæti með 8 stig. Leikurinn í kvöld fór fram í Smáranum vegna þeirra jarðhræringa sem eiga sér stað í Grindavík.
Keflavík byrjaði fyrsta leikhluta miklu betur og náði fljótlega tökum á leiknum. Í stöðunni 10:0 náði Grindavík að setja niður sín fyrstu stig þegar Dedrick Basile setti tveggja stiga körfu. Mest komust Keflvíkingar 11 stigum yfir í fyrsta leikhluta en Grindvíkingar vöknuðu til lífsins undir lok leikhlutans og náðu að minnka muninn niður í fimm stig.
Í öðrum leikhluta skildu leiðir. Keflvíkingar með Sigurð Pétursson og Remy Martin í broddi fylkingar gjörsamlega yfirspiluðu Grindavík sem áttu í mestu vandræðum með að koma boltanum ofan í körfuna. Staðan í hálfleik 22 stiga munur, 57:35 fyrir Keflavík.
Stigahæstir í liði Grindavíkur í fyrri hálfleik voru Dedrick Basile með 9 stig og DeAndre Kane með 8 stig. Í liði Keflavíkur var Sigurður Pétursson með 21 stig og Remy Martin með 18 stig.
Lítið breyttist í þriðja leikhlutanum þar sem Keflavík lék á als oddi og náði mest 31 stiga forskoti áður en Grindvíkingar fóru að minnka muninn. Verður það látið liggja milli hluta hvort ástæða þess að Grindavík náði að minnka muninn aftur niður 22 stig fyrir lok þriðja leikhluta sé sú að Keflavík slakaði á eða Grindavík fór að spila betur.
Fjórði leikhluti spilaðist alveg eins og sá þriðji og landaði Keflavík að lokum stórsigri 111:82.
Stigahæstir í liði Grindavíkur voru DeAndre Kane með 23 stig og Dedrick Basile með 15 stig. Í liði Keflavíkur var Remy Martin með 32 stig og Sigurður Pétursson með 26 stig.