Fimm spiluðu og fimm töpuðu

Styrmir Snær Þrastarson var stigahæstur Íslendinganna erlendis í kvöld með …
Styrmir Snær Þrastarson var stigahæstur Íslendinganna erlendis í kvöld með 12 stig fyrir Belfius Mons. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm Íslendingar sem leika í atvinnumennsku erlendis í körfuknattleik máttu sætta sig við ósigra í deildaleikjum með sínum liðum í kvöld.

Styrmir Snær Þrastarson skoraði 12 stig fyrir Belfius Mons sem tapaði naumlega á heimavelli fyrir Liege, 66:68, í belgísk-hollensku BNXT-deildinni. Styrmir lék í 21 mínútu en hann tók tvö fráköst og átti eina stoðsendingu.

Elvar Már Friðriksson skoraði 9 stig fyrir PAOK sem tapaði á útivelli gegn AEK í Aþenum 90:70, í grísku úrvalsdeildinni. Elvar tók þrjú fráköst og spilaði í 23 mínútur.

Hilmar Pétursson skoraði 6 stig og átti 6 stoðsendingar fyrir Münster sem tapaði á heimavelli gegn Trier, 95:117, í þýsku B-deildinni. Hilmar tók einnig tvö fráköst og spilaði í 24 mínútur.

Tryggvi Snær Hlinason og samherjar í Bilbao skoruðu aðeins 43 stig á heimavelli í kvöld þegar þeir töpuðu fyrir Unicaja Málaga, 43:67 í spænsku ACB-deildinni. Tryggvi skoraði 4 stig og tók 3 fráköst á 16 mínútum.

Sara Rún Hinriksdóttir skoraði þrjú stig og tók tvö fráköst fyrir Cadi Le Seu sem tapaði fyrir Avenida á útivelli, 65:59, í spænsku A-deildinni. Hún spilaði í 10 mínútur.

Martin Hermannsson er hins vegar ekki byrjaður að spila með Valencia í ACB-deildinni á Spáni en hann er að komast aftur af stað eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Valencia vann stórsigur á útivelli gegn Palencia í kvöld, 101:77.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert