Nýliðar Þórs frá Akureyri gerðu sér lítið fyrir og sigruðu topplið Keflavíkur, 87:83, í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik á Akureyri í dag.
Keflavíkurliðið hafði unnið átta fyrstu leiki sína á tímabilinu.
Þórskonur eru þá komnar með tíu stig í fimmta til sjötta sæti deildarinnar, eftir níu umferðir, og eru þar jafnar Val. Keflavík er með tveggja stiga forystu á toppnum þrátt fyrir ósigurinn og er með 16 stig úr níu leikjum.
Þór náði góðri forystu í fyrri hálfleik en staðan var 54:36 að honum loknum. Keflavík náði góðum spretti í þriðja leikhluta, eftir hann var staðan 64:58, en Akureyringar stóðust frekari áhlaup og sigurinn var ekki í teljandi hættu undir lokin.
Madison Sutton átti stórleik hjá Þór en hún var með 26 stig, tíu fráköst og fimm stoðsendingar. Jovanka Ljubetic skoraði 17 stig og tók níu fráköst og Hulda Ósk Bergsteinsdóttir skoraði 12 stig.
Daniela Wallen skoraði 19 stig fyrir Keflavík og tók 13 fráköst. Elisa Pinzan skoraði 17 stig og Birna Valgerður Benónýsdóttir var með 15 stig og sjö fráköst.