Grunaður um að hafa átt í sambandi við ólögráða einstakling

Josh Giddey (t.h.) í leik með Oklahoma á tímabilinu.
Josh Giddey (t.h.) í leik með Oklahoma á tímabilinu. AFP/Thearon W. Henderson

Ástralski körfuknattleiksmaðurinn Josh Giddey, leikmaður Oklahoma City Thunder, sætir nú rannsókn af hendi NBA-deildarinnar þar sem hann er grunaður um að hafa átt í ástarsambandi við stúlku undir lögaldri.

Fyrir helgi fóru í dreifingu ljósmyndir og myndskeið á samfélagsmiðlum af Giddey, sem er 21 árs, ásamt stúlku sem sögð er vera 16 ára gömul.

Lögaldurinn í Bandaríkjunum er 18 ára og gæti Giddey staðið frammi fyrir refsingu séu færðar sönnur fyrir því að hann hafi átt í óviðeigandi sambandi við ólögráða stúlku.

Hvorki Giddey né Oklahoma hafa tjáð sig opinberlega um málið en þjálfari liðsins, Mark Daigneault, staðfesti við fréttamenn fyrir leik á föstudag að rannsókn hefði verið komið á fót, hún væri á vegum deildarinnar og að ekki hefði komið til tals að setja Giddey til hliðar vegna rannsóknarinnar.

Giddey var spurður út í ásakanirnar fyrir helgi en svaraði því til að hann vildi ekki tjá sig um þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert