Tinna Guðrún Alexandersdóttir var stigahæst hjá Haukum þegar liðið vann nauman sigur gegn nýliðum Snæfells í 10. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik í Stykkishólmi í kvöld.
Leiknum lauk með sex stiga sigri Hauka, 78:72, en Tinna Guðrún skoraði 20 stig, tók 9 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar í leiknum.
Snæfell var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi með 13 stigum í hálfleik, 45:32.
Haukar mættu af krafti út í síðari hálfleikinn og voru búnir að minnka forskot Snæfells í eitt stig að þriðja leikhluta loknum, 60:59.
Haukar komust svo yfir, 63:62, þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum og létu forystuna aldrei af hendi eftir það.
Sólrún Gísladóttir skoraði 19 stig fyrir Hauka, tók þrjú fráköst og gaf eina stoðsendingu en Shawnta Shaw var stigahæst hjá Snæfelli með 25 stig, tíu fráköst og fimm stoðsendingar.
Haukar eru með 10 stig í sjöunda sæti deildarinnar en Snæfell er í tíunda og neðsta sætinu án stiga.