LeBron á tímamótum

LeBron James í leiknum í nótt.
LeBron James í leiknum í nótt. AFP/Tim Nwachukwu

LeBron James sló metið yfir flestar leiknar mínútur í NBA-deildinni í körfuknattleik er lið hans LA Lakers mátti þola stórt tap fyrir Philadelphia 76ers í nótt, sem er um leið stærsta tapið á 21 árs ferli LeBrons í deildinni.

Hann hefur nú spilað alls 66.319 mínútur á ferlinum í NBA og er kominn upp fyrir Kareem Abdul-Jabbar á listanum yfir flestar leiknar mínútur, en sá síðarnefndi lék 66.297 mínútur á sínum tíma.

Lakers steinlá í nótt, tapaði 138:94, og hafði LeBron aldrei áður tapað með þetta miklum mun, 44 stigum.

Hann heldur áfram að skrá sig í sögubækur NBA-deildarinnar þar sem LeBron varð á dögunum fyrsti leikmaðurinn í sögunni sem skorar yfir 39.000 stig í henni, en hann er stigahæsti leikmaður í sögu deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert