Danielle Rodriguez var atkvæðamikil fyrir Grindavík þegar liðið heimsótti Fjölni í 10. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik í Dalhúsum í Grafarvogi í kvöld.
Leiknum lauk með fimm stiga sigri Grindavíkur, 81:76, en Rodriguez skoraði 24 stig, tók tíu fráköst og gaf fimm stoðsendingar í leiknum.
Grindavík var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi með fimm stigum í hálfleik, 48:43.
Grindavíkingar voru áfram sterkari aðilinn í síðari hálfleik en Fjölni tókst að minnka forskot Grindavíkur í eitt stig þegar þrjár mínútur voru til leiksloka, 73:72. Lengra komst Fjölnir hins vegar ekki og Grindavík fagnaði sigri.
Eve Braslis skoraði 21 stig fyrir Grindavík, tók sex fráköst og gaf tvær stoðsendingar en Raquel Laneiro var stigahæst hjá Fjölni með 23 stig, níu fráköst og átta stoðsendingar.
Grindavík er með 14 stig í fjórða sæti deildarinnar en Fjölnir er í áttunda sætinu með sex stig.