Philadelphia 76ers lenti ekki í nokkrum vandræðum með LA Lakers þegar liðin áttust við í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. Urðu lokatölur 138:94.
Joel Embiid, Kamerúninn sem hefur ákveðið að leika fyrir bandaríska landsliðið á Ólympíuleikunum næsta sumar, fór á kostum fyrir Philadelphia og náði þrefaldri tvennu.
Skoraði hann 30 stig, tók 11 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Stigahæstur í leiknum var hins vegar liðsfélagi Embiids, Tyrese Maxey, sem skoraði 31 stig og gaf átta stoðsendingar.
Reynsluboltinn LeBron James var stigahæstur í liði Lakers með 18 stig og fimm stoðsendingar.
NBA-meistarar Denver Nuggets létu ekki fjarveru stórstjörnu sinnar, Nikola Jokic, á sig fá og lögðu LA Clippers að velli, 113:104.
Jókerinn var að glíma við smávægileg meiðsli en í fjarveru hans fór Reggie Jackson á kostum og skoraði 35 stig ásamt því að taka 13 fráköst.
DeAndre Jordan bætti við 21 stigi og tók 13 fráköst.
Stigahæstur í liði Clippers var Kawhi Leonard með 31 stig og átta fráköst. Ivica Zubac bætti við 23 stigum og tók 14 fráköst.
Öll úrslit næturinnar:
Philadelphia – LA Lakers 138:94
LA Clippers – Denver 104:113
Detroit – Washington 107:126
Indiana – Portland 110:114
Utah – New Orleans 114:112