Keflavík fór illa með Njarðvík

Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði 13 stig fyrir Keflavík í kvöld.
Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði 13 stig fyrir Keflavík í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Eliza Pinzan var stigahæst hjá Keflavík þegar liðið tók á móti Njarðvík í 10. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik í Keflavík í kvöld.

Leiknum lauk með stórsigri Keflavíkur, 72:45, en Onzan skoraði 14 stig, tók sex fráköst og gaf sex stoðsendingar í leiknum.

Keflavík leiddi með fimm stigum eftir fyrsta leikhluta, 15:10, en Keflavík skoraði 25 stig gegn 12 stigum Njarðvíkur í öðrum leikhluta og var staðan 40:22, Keflavík í vil, í hálfleik.

Keflavík byrjaði síðari hálfleikinn betur og leiddi með 26 stigum að þriðja leikhluta loknum, 60:34. Njarðvíkingar voru aldrei líklegir til þess að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta og Keflavík fagnaði öruggum sigri.

Thelma Dís Ágústsdóttir og Anna Ingunn Svansdóttir skoruðu 13 stig hvor fyrir Keflavík en Emilie Hesseldal og Angela Strize voru stigahæstar hjá Njarðvík með 11 stig hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert