Donovan Mitchell átti stórleik fyrir Cleveland Cavaliers þegar liðið lagði Atlanta Hawks að velli, 128:105, í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.
Mitchell gerði sér lítið fyrir og skoraði 40 stig auk þess sem hann tók 11 fráköst, gaf fimm stoðsendingar og var með þrjá stolna bolta.
Var hann sá eini í leiknum sem skoraði meira en 20 stig, en næst því komst liðsfélagi Mitchells, Darius Garland, með 19 stig og átta stoðsendingar.
Slóveninn Luka Doncic mátti ekki minni maður vera en Mitchell og skoraði 41 stig fyrir Dallas Mavericks í 121:115-sigri á Houston Rockets.
Doncic var hársbreidd frá því að ná glæsilegri þrefaldri tvennu þar sem hann var einnig með níu fráköst og níu stoðsendingar.
Liðsfélagi hans Kyrie Irving lét sömuleiðis til sín taka og skoraði 27 stig.
Stigahæstur í liði Houston var Tyrkinn Alperen Sengün með 31 stig, níu fráköst og sex stoðsendingar.
Sacramento Kings vann Golden State Warriors með minnsta mun, 124:123, í frábærum leik þar sem þrír leikmenn skoruðu 29 stig.
DeAaron Fox, leikmaður Sacramento, var einn þeirra en hann bætti einnig við níu fráköstum, sjö stoðsendingum og tveimur stolnum boltum.
Steph Curry skoraði einnig 29 stig fyrir Golden State og tók þar að auki tíu fráköst og gaf sex stoðsendingar.
Liðsfélagi hans Andrew Wiggins var sá þriðji með þetta mörg stig og tók hann einnig tíu fráköst.
Giannis Antetokounmpo og Damian Lillard fóru þá fyrir Milwaukee Bucks í 131:124-sigri liðsins á Miami Heat.
Gríska undrið Antetokounmpo skoraði 33 stig, tók tíu fráköst, gaf fimm stoðsendingar og stal þremur boltum.
Lillard bætti við 32 stigum og níu stoðsendingum.
Hjá Miami var Bam Adebayo stigahæstur með 31 stig, tíu fráköst og fimm stoðsendingar.
Öll úrslit næturinnar:
Cleveland – Atlanta 128:105
Dallas – Houston 121:115
Sacramento – Golden State 124:123
Miami – Milwaukee 124:131
Boston – Chicago 124:97
Brooklyn – Toronto 115:103
New York – Charlotte 115:91
Minnesota – Oklahoma 106:103