Fjórði sigur Njarðvíkur í röð

Mario Matasovic, til hægri, skoraði 26 stig í Hveragerði.
Mario Matasovic, til hægri, skoraði 26 stig í Hveragerði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mario Matasovic var stigahæstur hjá Njarðvík þegar liðið heimsótti Hamar í 9. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Hveragerði í kvöld.

Leiknum lauk með öruggum sigri Njarðvíkur 109:85, en Matasovic skoraði 26 stig og tók sjö fráköst í leiknum.

Njarðvíkingar voru sterkari aðilinn strax frá fyrstu mínútu og leiddu með tíu stigum í hálfleik, 49:39.

Njarðvíkingar skoruðu 38 stig gegn 26 stigum Hamars í þriðja leikhluta og var leikurinn svo gott sem búinn eftir það.

Chaz Williams skoraði 23 stig fyrir Njarðvík, tók sex fráköst og gaf fjórtán stoðsendingar en Julian Moore var stigahæstur hjá Hamri með 30 stig, níu fráköst og sjö stoðsendingar.

Njarðvík er með 14 stig í efsta sæti deildarinnar og hefur tveggja stiga forskot á Val og Keflavík en Hamar er án stiga í neðsta sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert