Fyrsti sigur Hauka síðan 26. október

Hattarmaðurinn Deontaye Buskey og Hafnfirðingurinn Daníel Ágúst Halldórsson eigast við …
Hattarmaðurinn Deontaye Buskey og Hafnfirðingurinn Daníel Ágúst Halldórsson eigast við í Ólafssal í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Daniel Love, nýjasti leikmaður Hauka, fór mikinn þegar liðið tók á móti Hetti í 9. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Ólafssal í Hafnarfirði í kvöld.

Leiknum lauk með naumum sigri Hauka, 93:85, en Love gerði sér lítið fyrir og skoraði 26 stig, tók sex fráköst og gaf eina stoðsendingu í leiknum.

Haukar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu með ellefu stigum í hálfleik, 50:39.

Hattarmenn mættu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og tókst að minnka forskot Hafnfirðinga í þrjú stig í þriðja leikhluta og var staðan 65:62 að honum loknum.

Haukar sterkari á lokamínútunum

Staðan var jöfn, 74:74, þegar tæplega fjórar mínútur voru til leiksloka en þá skoruðu Haukar sex stig í röð og Hetti tókst ekki að snúa leiknum sér í vil eftir það.

Osku Heinonen skoraði 21 stig fyrir Hauka, tók tvö fráköst og gaf eina stoðsendingu en Deontaye Buskey var stigahæstur hjá Hetti með 23 stig, fjögur fráköst og fjórar stoðsendingar.

Þetta var fyrsti sigur Hauka í deildinni síðan 26. október þegar liðið hafði betur gegn Hamri í Ólafssal, 98:91, en Haukar eru með 6 stig í tíunda sætinu. Höttur er í fimmta sætinu með 10 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert