Lögregla rannsakar meint samband við ólögráða stúlku

Josh Giddey í leik með Oklahoma City Thunder.
Josh Giddey í leik með Oklahoma City Thunder. AFP/Joshua Gateley

Lögreglan í bænum Newport Beach í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum rannsakar nú hvort Josh Giddey, leikmaður Oklahoma City Thunder í NBA-deildinni í körfuknattleik, hafi átt í ástarsambandi við ólögráða stúlku.

Áður hafði NBA-deildin sett á fót sína eigin rannsókn eftir að ljósmyndir og myndskeið af Giddey ásamt stúlku, sem sögð er vera 16 ára gömul, fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum um síðustu helgi.

Giddey er 21 árs gamall Ástrali og miðast lögaldur í Bandaríkjunum við 18 ár.

„Okkur er kunnugt um upplýsingar sem hefur verið dreift á internetinu sem tengjast meintu sambandi atvinnukörfuboltamannsins Josh Giddey og stúlku undir lögaldri.

Rannsóknarlögreglumenn eru nú að afla sér upplýsinga í tengslum við þessar ásakanir og skoða allar vísbendingar og sönnunargögn til þess að koma staðreyndum málsins á hreint,“ sagði Steve Oberon, lögregluþjónn hjá lögreglunni í Newport Beach, í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert