Emil Karel Einarsson og Darwin Davies voru stigahæstir hjá Þór úr Þorlákshöfn þegar liðið tók á móti Íslandsmeisturum Tindastóls í 9. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Þorlákshöfn í kvöld.
Leiknum lauk með stórsigri Þórsara, 96:79, en Emil Karel og Davies skoruðu 18 stig hvor í leiknum.
Þórsarar byrjuðu leikinn af miklum krafti og leiddu með 13 stigum eftir fyrsta leikhluta, 29:16. Þórsarar juku forskot sitt ennþá frekar í öðrum leikhluta og var staðan 52:34, Þór í vil, í hálfleik.
Tindastóll byrjaði síðari hálfleikinn betur og tókst að minnka forskot Þórsara í þriðja leikhluta og var staðan 69:63, Þór í vil, að honum loknum.
Þórsarar voru hins vegar mun sterkari í fjórða leikhluta, náðu snemma ellefu stiga forskoti, 76:65, og Tindastól tókst ekki að koma til baka eftir það.
Jordan Semple skoraði 16 stig fyrir Þórsara, tók ellefu fráköst og gaf sjö stoðsendingar en Adomas Drungilas var stigahæstur hjá Tindastól gegn sínum gömlu liðsfélögum með 17 stig, níu fráköst og tvær stoðsendingar.
Þórsarar eru með 12 stig í þriðja sætinu en Tindastóll er í áttunda sætinu með 10 stig.