Pétur hafði betur gegn gömlu lærisveinunum

Remy Martin átti stórleik í kvöld.
Remy Martin átti stórleik í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Pétur Ingvarsson og lærisveinar hans í Keflavík höfðu betur gegn hans gömlu lærisveinum í Breiðablik þegar liðin mættust í 9. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í Keflavík í kvöld.

Leiknum lauk með fjórtán stiga sigri Keflavíkur, 100:86, en Remy Martin fór á kostum hjá Keflavík í leiknum, skoraði 36 stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Keflavík var sterkari aðilinn í fyrsta leikhluta en Breiðablik snéri leiknum sér í vil í öðrum leikhluta og leiddi með þremur stigum í hálfleik, 48:45.

Minnkuðu muninn í fjögur stig

Keflavík leiddi með sex stigum að þriðja leikhluta loknum, 76:70, en Breiðablik tókst að minnka forskot Keflavíkur í fjögur stig, 78:74. Lengra komust Blikar hins vegar ekki og Keflavík fagnaði sigri.

Jaka Brodnik skoraði 21 stig fyrir Keflavík, tók fimm fráköst og gaf eina stoðsendingu en Keith Jordan var stigahæstur hjá Breiðabliki með 32 stig, fjórtán fráköst og eina stoðsendingu.

Keflavík er með 12 stig í þriðja sæti deildarinnar en Breiðablik er í ellefta sætinu með 2 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert