Bronny James, sonur körfuboltagoðsagnarinnar LeBron James, hefur fengið grænt ljós frá læknum til að hefja æfingar og keppni að nýju eftir að hafa farið í hjartastopp á æfingu með körfuboltaliði sínu, háskólaliði South Carolina-skólans, í júlí síðastliðnum.
Bronny hefur undanfarið tekið þátt í upphitunum með liði South Carolina en ekki mátt beita sér af fullum krafti á æfingum. Það sér hins vegar fyrir endann á því.
Í yfirlýsingu frá talsmanni James-fjölskyldunnar segir að Bronny hefji æfingar á ný í næstu viku og mæti aftur til keppni skömmu eftir það.
„Bronny James hefur fengið grænt ljós frá læknum sínum til þess að hefja körfuknattleiksiðkun af fullum krafti á ný. Bronny mun gangast undir lokaskoðanir hjá starfsmönnum South Carolina–háskóla í þessari viku, snúa aftur til æfinga í þeirri næstu og hefja keppni að nýju stuttu síðar.
James-fjölskyldan vill koma á framfæri þökkum til ótrúlegs læknateymis hans, öllu samfélagi South Carolina-háskólans og sérstaklega hinum mikla fjölda vina, fjölskyldu og aðdáenda fyrir ást sína og stuðning. Höldum áfram að berjast!“ sagði í yfirlýsingunni.