Koníaksmaðurinn kveikti í Keflvíkingum

Njarðvíkingurinn Chaz Williams brýtur sér leið að körfu Keflvíkinga og …
Njarðvíkingurinn Chaz Williams brýtur sér leið að körfu Keflvíkinga og Remy Martin kemur engum vörnum við. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Fyrir leik voru bæði lið við toppinn og gulrótin eftir þennan leik toppsæti deildarinnar. Leikurinn náði hinsvegar aldrei þeirri reisn sem búist var við því Keflvíkingar hreinlega völtuðu yfir arfaslaka Njarðvíkinga í kvöld og lokastaðan 103:82. Sigurinn hefði hæglega getað orðið stærri en Keflvíkingar léttu aðeins á hreðjataki sínu á lokaspretti leiksins.

Sem fyrr alltaf ákveðin eftirvænting fyrir þessum leik en síðustu fjórir deildarleikir höfðu fallið til Njarðvíkinga á milli þessara liða. Jafnræði var með liðunum fyrstu 10 mínútur leiksins en þá tók koníaksmaðurinn Remy Martin leikinn í sínar hendur og létti björgunarsveit bæjarins nokkuð sporin þar sem flugeldasýning hófst nokkuð óvænt. Það virtist varla skipta máli hvar kappinn skaut boltanum það fór allt ofan í.

Þessi kafli Remy snéri leiknum á þann veg að sá neisti sem var í Njarðvíkingum fyrir kvöldið og í upphafi leiks var kæfður að fullu. Eftirleikurinn hjá gestunum var furðulega auðveldur því það virtist sem að lykilmenn hjá Njarðvíkingum hafi hreinlega farið í fýlu og gefist upp.

Á meðan voru það Keflvíkingar sem spiluðu fastan varnarleik og voru töluvert ákveðnari í öllum sínum aðgerðum. Með hverri mínútunni jókst sjálfstraust Keflvíkinga og á tímabili í leiknum gátu þeir hreinlega hent boltanum í öfuga átt við körfuna en samt fór hann ofaní. Þetta smitaðist svo á þá sem voru á bekknum og þeir sem voru þar komu inná og skiluðu körfum.

Án þess að taka mikið af stórkostlegum leik Keflvíkinga í kvöld þá var mótspyrnan frá Njarðvíkingum nánast skammarleg miðað við mikilvægi kvöldsins. En því má svo kannski ekki gleyma að auðvitað eiga allir sína slaka leiki, en frá sjónarhorni blaðamanns voru Njarðvíkingar með spennustigið stillt meira á sófasetu heima fyrir en stórleik í úrvalsdeildinni.

Sem fyrr segir var það Remy Martin sem að megninu til skilaði þessum sigri í hús fyrir Keflvíkinga og endaði með 33 stig í kvöld. Fáir voru með lífsmarki hjá Njarðvíkingum en Maciej Baginski kom inn af bekknum og barðist vel ásamt Mario Matasovic. Allir aðrir voru langt frá sínu besta.

Njarðvík 82:101 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert