Körfuknattleikslið Hauka er komið áfram í 8-liða úrslit bikarkeppni kvenna. Haukar báru sigur úr býtum gegn Ármanni 74:67 eftir fjörugan leik á Ásvöllum.
Jafnræði var með liðunum alveg þar til í fjórða og síðasta hluta leiksins en staðan í hálfleik var 30:30. Í fjórða leikhluta stungu Haukakonur af og skoruðu 27 stig.
Atkvæðamest í liði Hauka var Lovísa Björt Henningsdóttir en hún náði glæsilegri tvennu með 17 stigum og tíu fráköstum á 31 mínútu.
Á eftir henni var Rósa Björk Pétursdóttir með 15 stig og fimm fráköst. Í liði Ármanns var Fanney Ragnarsdóttir atkvæðamest með 20 stig og sex fráköst á 32 mínútum.