Góður leikur landsliðsmannsins Elvars Más Friðrikssonar dugði ekki til fyrir PAOK þegar liðið sótti topplið Panathinaikos heim í grísku A1-deildinni í körfuknattleik í kvöld.
Elvar var með tvöfalda tvennu en hann skoraði 15 stig og átti 11 stoðsendingar en auk þess tók hann þrjú fráköst. Njarðvíkingurinn lék mest allra í liði PAOK eða í 35 mínútur.
Panathinaikos vann leikinn, 97:85, og hefur unnið alla tíu leiki sína á tímabilinu til þessa. PAOK er hins vegar með fimm sigra og fimm töp og er í fimmta sæti af tólf liðum. Baráttan um efstu sex sætin sem tryggja keppnisrétt í efri hlutanum er gríðarlega hörð.