Nýliðar Þórs frá Akureyri unnu magnaðan endurkomusigur á Íslandsmeisturum Vals, 77:71, í 13. umferð úrvalsdeildar kvenna í körfuknattleik á Akureyri í kvöld.
Valur náði fljótt undirtökunum og var til að mynda með tólf stiga forystu, 26:38, í hálfleik.
Í byrjun síðari hálfleiks var allt útlit fyrir að Valur myndi eiga náðugt kvöld enda var staðan orðin 32:50 þegar þriðji leikhluti var hálfnaður.
Þórsarar héldu þó ekki, hófu að þjarma að Val og luku leikhlutanum á því að skora 16 stig í röð og minnka muninn niður í aðeins tvö stig, 48:50.
Þar með var grunnurinn lagður að æsispennandi fjórða leikhluta.
Bæði lið áttu í nokkrum erfiðleikum með að hitta ofan í körfuna framan af leikhlutanum en náði Þór að jafna metin í 53:53 að rúmum þremur mínútum liðnum og komst svo yfir í fyrsta sinn í leiknum, 56:55, mínútu síðar.
Spennan var gífurleg næstu mínútur en var það svo Þór sem sigldi fram úr undir blálokin og vann glæsilegan fjögurra stiga sigur.
Stigahæst í liði Þórs var Lore Devos með 26 stig auk þess sem hún tók 11 fráköst.
Stigahæst hjá Val var Eydís Eva Þórisdóttir með 16 stig. Dagbjört Dögg Karlsdóttir var skammt undan með 15 stig.
Með sigrinum fór Þór upp fyrir aðra nýliða, Stjörnuna, og er nú í fjórða sæti. Stjarnan er í fimmta sæti þar sem bæði lið eru með 16 stig.
Valur er áfram í sjöunda sæti með 12 stig.