Þjálfari hjá skólaliði í körfuknattleik í Texas-ríki í Bandaríkjunum varð fyrir líkamsárás þegar ósátt fjölskylda leikmanns liðsins sat fyrir honum.
Þjálfarinn hafði ákveðið að setja leikmanninn á varamannabekk liðsins vegna hegðunar hans í garð mótherja síns.
Samkvæmt yfirlýsingu frá lögreglunni í Montgomery-sýslu kvaðst þjálfarinn hafa orðið fyrir árás nokkurra einstaklinga að kvöldi 5. desember stuttu eftir leik hjá skólaliði Willis-grunnskólans, þar sem umræddur leikmaður sat á varamannabekknum.
Leikmaðurinn hafi ásamt fjölskyldu sinni reiðst mjög yfir ákvörðun þjálfarans. Fjölskyldan hafi þá setið fyrir þjálfaranum er hann sneri aftur til Willis-grunnskólans eftir leik gegn liði Conroe-grunnskólans.
Hann fór inn í skólann en þegar þjálfarinn kom aftur út var fjölskyldan enn fyrir utan og réðist á hann.
Í yfirlýsingu lögreglunnar segir að fjölskyldumeðlimir hafi fyrst átt í orðaskaki við þjálfarann og í kjölfarið hafi leikmaðurinn kýlt hann í andlitið. Bróðir leikmannsins hafi skömmu síðar einnig ráðist á þjálfarann.
Leikmaðurinn, sem er 17 ára, og 22 ára bróðir hans, flúðu vettvang eftir að annar þjálfari og nokkrir aðrir nærstaddir náðu að stöðva árásina en voru stuttu síðar handteknir, grunaðir um líkamsárás í garð opinbers starfsmanns.
Þjálfarinn var með áverka á höfði, hálsi, andliti og handleggjum eftir árásina.
Bræðrunum hefur verið sleppt gegn tryggingu upp á 23.000 bandaríkjadali, rúmar 3,2 milljónir íslenskra króna, fyrir hvorn þeirra en rannsókn stendur enn yfir.