Auður Íris Ólafsdóttir hefur óskað eftir því að láta af störfum sem þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í körfuknattleik.
Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum en Auður Íris, sem er 31 árs gömul, lætur formlega af störfum í Garðabænum um áramótin.
Hún kom fyrst til Stjörnunnar árið 2018 sem leikmaður, og var meðal annars valin besti varnarmaður deildarinnar tímabilið 2018-19.
Hún tók við þjálfun Garðabæjarliðsins árið 2021 og hefur stýrt liðinu ásamt Arnari Guðjónssyni undanfarin tímabil.
„Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar þakkar Auði fyrir vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar,“ segir í tilkynningu Stjörnunnar.
Stjarnan, sem er nýliði í úrvalsdeildinni, situr í þriðja sæti deildarinnar með 18 stig eftir þrettán umferðir, sex stigum minna en topplið Keflavíkur.