Stórsigur Tindastóls í Hveragerði

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson skoraði 28 stig í Hveragerði.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson skoraði 28 stig í Hveragerði. mbl.is/Óttar Geirsson

Tindastóll vann 25 stiga útsigur á Hamri, 106:81, í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í Hveragerði í kvöld. 

Tindastólsliðið var yfir með sjö stigum í hálfleik, 43:36. Sauðkrækingar bættu forskot sitt í tólf stig í þriðja leikhluta, 78:66, og léku svo fjórða leikhluta með stæl. 

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var atvkæðamestur í liði Tindastóls en hann skoraði 28 stig, tók átta fráköst og gaf níu stoðsendingar. Þá skoraði David Geks 24 stig. 

Hjá Hamri var Franck Kamgain stigahæstur með 24 stig. 

Tindastóll er nú með 14 stig, líkt og sjö önnur lið, í sjötta sæti en Hamar er neðstur án stiga. 

Sterkur sigur Hattar

Þá vann Höttur góðan fimm stiga sigur á Álftanesi, 78:73, á Egilsstöðum. 

Hattarmenn náðu góðri forystu í fyrsta leikhluta, 22:14, en Álftnesingar minnkuðu muninn í fimm stig í öðrum leikhluta, 44:39. 

Höttur hélt þó út í síðari hálfleik og vann að lokum fimm stiga sigur. 

Hjá Hetti var Adam Ásgeirsson stigahæstur með 25 stig en hann tók einnig fjögur fráköst. Dúi Þór Jónsson skoraði þá 25 stig fyrir Álftanes, tók þrjú fráköst og gaf fimm stoðsendingar. 

Höttur er í áttunda sæti deildarinnar með 12 stig en Álftanes er í fimmta með 14 stig, líkt og sjö önnur lið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert