Breiðablik dregur lið sitt úr keppni

Breiðablik hefur dregið lið sitt úr keppni í úrvalsdeildinni.
Breiðablik hefur dregið lið sitt úr keppni í úrvalsdeildinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Körfuknattleiksdeild Breiðabliks hefur dregið kvennalið félagsins úr keppni í úrvalsdeildinni. Þrír leikmenn liðsins riftu samningi sínum við félagið í vikunni og stóðu því fáir leikmenn eftir.

„Staðan er einfaldlega sú að það eru ekki nógu margir leikmenn til að halda úti æfingum, hvað þá liði í efstu deild. Á jákvæðu nótunum þá hafa stúlkurnar okkar í 9.-12. flokki verið að standa sig vel á tímabilinu og munum við nú hlúa vel að þeim þar sem þær fá vettvang til að þroskast sem leikmenn á jafningjagrundvelli,“ segir m.a. í yfirlýsingu félagsins.

Heim­ir Snær Jóns­son, formaður körfuknatt­leiks­deild­ar Breiðabliks, ræddi við mbl.is í vikunni og sagði það koma til greina að draga liðið úr keppni, sem nú er orðin raunin.

Yfirlýsing Breiðabliks í heild sinni:

Tilkynning frá stjórn körfuknattleiksdeildar Breiðabliks.

Fyrr í vikunni var greint frá því að þrjár af lykilleikmönnum meistaraflokks hefðu óskað eftir að verða leystar undan samningi við félagið.

Stjórn og leikmenn hafa rætt næstu skref ítarlega og farið yfir hvaða möguleikar eru í þeirri erfiðu, og satt að segja sorglegu, stöðu sem nú er upp komin hjá okkur. Það er því með þungum hug sem við tilkynnum að niðurstaðan er sú að Breiðablik neyðist til að draga liðið úr keppni í Subway deild kvenna.

Þessi ákvörðun er ekki tekin af neinni léttúð heldur að vel yfirlögðu ráði þar sem allir mögulegir kostir hafa verið rækilega skoðaðir og ræddir í þaula. Staðan er einfaldlega sú að það eru ekki nógu margir leikmenn til að halda úti æfingum, hvað þá liði í efstu deild.

Á jákvæðu nótunum þá hafa stúlkurnar okkar í 9.-12. flokki verið að standa sig vel á tímabilinu og munum við nú hlúa vel að þeim þar sem þær fá vettvang til að þroskast sem leikmenn á jafningjagrundvelli.

Við viljum þakka allan þann stuðning sem við höfum fengið á tímabilinu og horfum bjartsýn til framtíðar þar sem meistaraflokkur Breiðabliks mun snúa til keppni á ný áður en langt um líður.

-Stjórn körfuknattleiksdeildar og leikmenn meistaraflokks kvenna í Breiðablik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert