Bosníumaðurinn Jusuf Nurkic, leikmaður Phoenix Suns í NBA-deildinni í körfuknattleik, hefur tjáð sig um atvikið þegar Draymond Green, leikmaður Golden State Warriors, sló hann í andlitið.
Green var úrskurðaður í ótímabundið bann eftir að hafa verið vísað út úr húsi vegna þess að hann sló Nurkic í andlitið í leik liðanna í vikunni.
Var Green nýkominn úr fimm leikja banni fyrir að hafa tekið Rudy Gobert, leikmann Minnesota Timberwolves, hálstaki í leik liðanna.
„Ég veit ekki hvað er í gangi með hann. Persónulega finnst mér þessi bróðir þurfa á hjálp að halda.
Ég er feginn því að hann reyndi ekki að taka mig hálstaki. Þetta hefur ekkert með körfubolta að gera. Ég reyni bara að spila körfubolta,“ sagði Nurkic við fréttamenn eftir leik Golden State og Phoenix.
Green tjáði sig einnig um atvikið eftir leikinn og bað Nurkic þar afsökunar.